Wednesday, February 21, 2018

Upphafið


Ég ákvað að byrja með þetta blogg því ég hef gengið með þá tilfinningu í maganum í mörg ár - og kannski sérstaklega eftir að ég eignaðist börn - að ég eigi of mikið af öllu.

Samt finnst mér ég aldrei kaupa neitt!

Börnin eiga svo mikið af fötum - og helminginn nota þau aldrei
Leikfangafjallið vex hver jól og eftir hvert afmæli - en þau leika sér líklega mest með vasaljós, trjágreinar og tommustokka.

Ég er með fulla skápa af fötum sem ég kemst ekki í, fulla kassa af skóm með hálf-eyddum hæl
Bækur, möppur, pappíra, hálftómar kremflöskur, gamla varaliti... og nátturlega allt á rúi og stúi.

Ég er með ágætislaun. En samt á ég aldrei afgang í enda mánaðarins. Ekki frekar en þegar ég var í námi. Og það er kapítuli út af fyrir sig! Ég svitna þegar ég hugsa um hversu miklu ég eyddi þegar ég var á námslánum - í ekki neitt! Það er sama við hvern  ég tala - fólk sem er á miklu hærri launum en ég - og enginn á afgang í enda mánaðarins.

Það er í raun fáránlegt að við eyðum bróðurpart ævi okkar í vinnunni - og hugsum svo lítið um í hvað við eyðum peningunum okkar. Ég er ekki að tala um hús, bíl, utanlandsferðir, og allt þetta stóra (og nauðsynlega). Heldur take away kaffi hér, rúnstykki þar, sniðugt dót í tiger, og ódýran bol eða blússu í HM.

Ég hef búið í Danmörku í 10 ár, og hef oftar en ég þori að viðurkenna látið sparsemina í Dönunum fara í taugarnar á  mér. Nesti hér og nesti þar, allir að kaupa notað, gefa notað í gjafir, keyra um í gömlum bílum, ganga í gömlum inniskóm, allir ólitaðir, ómálaðir og.. þetta er ekki sanngjarnt, en svona hugsar maður oft sem útlendingur - og sérstaklega þá daga sem maður er þreyttur á því að vera útlendingur.

Það er ekki sundlaug, safn, eða skemmtigarður án þess að það sé risa svæði til þess að borða nesti. Allir - alltaf - með nesti. Nema ég

Ég hef oft hugsað, að það hlýtur að vera einhver millivegur.

Þegar ég sá bókina "Et år uden overforbrug" hugsaði ég - nú er tækifærið!

Höfundurinn talar fyrir minimalistískum lífstíl.

Þegar ég heyri orðið minimalistískur lífsstíll hugsa ég um hvítan leðursófa, tóman blómavasa og bergmál í stóru húsi. Undirtitill bókarinner er: Að njóta lífsins án ofgnóttar. Það er akkúrat það sem ég vil gera. Njóta lífsins. Kaupa það sem mig langar í. Án þess að hafa samviskubit yfir því. Reyna að sleppa því sem ekki er nauðsynlegt - en vanda valið á því sem ég nota peningana mína í.

Ég hef alltaf hugsað með mér að það sé svo leiðinlegt að spara. Leiðinlegt að leggja fyrir. Leiðinlegt að velta fyrir sér hverri krónu. En það er samt heimskulegt að vera alltaf í vinnunni, og vita svo ekkert hvað verður um peningana.

Bloggið langar mig að hafa sem stuðning fyrir mig að halda mér við efnið. Leyfa ykkur að fylgjast með, kannski fá góð ráð. Ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki sexy efni. Ég á líklega ekki eftir að fá spons, eða auglýsingar, þar sem markmiðið er ekki að kaupa meira - heldur að kaupa minna. Ég geri mér líka grein fyrir að þetta eru ekki ný vísindi - heldur gömul. Svona hafa ömmu okkar og afar hugsað, og foreldrar okkar líka.

Það er bara eins og gleymst hafi að kenna okkar kynslóð að fara vel með aurana okkar. Og ekki held ég að það skáni með instagram og facebook menningunni, þar sem allt á að virðast fullkomið - og þar sem birtingarmynd hins fullkomna oft snýst um að kaupa nýtt og njóta.

Jæja, af stað - ég skelli í póst um fyrstu vikuna :)


No comments:

Post a Comment